Forsíða
Ferðaþjónusta
Horfin býli
Kveðskapur
Kaldalóns
Steinn Steinarr
Rafvæðing
Spánverjavígin
Skólahald
Drangajökull
Undir Snjáfjöllum
Um Snjáfjallasetur
English

Spánverjavígin 1615

Baskar Útdrættir erinda á málþingi um Spánverjavígin 1615 sem haldið var í Dalbæ 24.-25. júní 2006


Michael M. Barkham
Doktor við Harvard-háskóla

Lok hvalveiða Baska við Nýfundnaland í samhengi við upphaf veru þeirra á Svalbarða, Íslandi og Noregi í byrjun 17. aldar
Á fyrri helmingi 16. aldar settu baskneskir hvalveiðimenn á fót fyrstu stóru hvalveiðistöð í heimi á Nýfundnalandi. Miðstöð þessarar útgerðar samanstóð af um tíu höfnum á suðurströnd Labrador. Á mestu aflaárunum frá 1560 til 1580 voru um 30 skip þar að veiðum með allt að 2000 karlmönnum og drengjum, sem drápu um 400 hvali árlega á þessu svæði. Við upphaf 17. aldar lauk þessari útgerð. Hér verður rýnt í ástæður endaloka þessara brautryðjendaveiða og hvenær baskneskir útgerðarmenn fóru að skipuleggja hvalveiðileiðangra til Svalbarða, Íslands og Norður-Noregs í byrjun 17. aldar.


Selma Huxley Barkham

Martin de Villafranca frá San Sebastian: baskneskur hvalveiðiskipstjóri drepinn á Íslandi 1615
Þegar Baskar hættu hvalveiðiútgerð á Nýfundnalandi í byrjun 17. aldar hófu þeir hvalveiðar í landgrunni Íslands. Á meðal skipstjóra í þessum leiðöngrum var Martin de Villafranca frá San Sebastian, en bæði faðir hans og afi höfðu verið við hvalveiðiútgerðina á Nýfundnalandi. Eins og glöggt kemur fram í íslenskum heimildum urðu deilur á milli Baskanna og Íslendinga til þess að nokkrir hvalveiðimannanna voru drepnir á Íslandi árið 1615, þar á meðal Martin de Villafranca. Hér verður rætt hvernig finna má í baskneskum og spænskum skjölum upplýsingar um Villafranca, fjölskyldu hans og sjósókn Baska.


Henrike Knörr
yfirmaður rannsókna á baskneskri tungu við Konunglegu akademíuna og prófessor við Háskóla Baskalands

Baskneskir sjómenn á Íslandi. Um tvítyngdu orðasöfnin á 17. öld
Baskneskir sjómenn komu til Íslands og annarra landa við norðanvert Atlantshaf til að stunda hvalveiðar. Eitt það athyglisverðasta við dvöl þeirra á Íslandi er tvö basknesk-íslensk orðasöfn frá 17. öld, sem varðveitt eru á Stofnun Árna Magnússonar í Reykjavík. Nicolaas Gerardus Hendricus Deen rannsakaði þessi orðasöfn við Háskólann í Leiden 1937 og gróf upp okkur nokkra vitneskju um þau. Hér verður reynt að gefa yfirlit yfir þessar rannsóknir auk þess að skoða það baskneska tungumál sem birtist í þessum handritum.


Trausti Einarsson
sagnfræðingur

Hvalveiðar Baska við Íslandsstrendur
Safnritið Itsasoa : El Mar de Euskalerria. La Naturaleza, el Hombre y su Historia útgefið í San Sebastián 1987 er rækilegasta samantekt sem um getur á hvalveiðum Baska við Íslandsstrendur. Þar setur Selma Huxley Barkham fram þá skoðun sem hún ítrekar enn frekar í samantekt sinni Basque Coast of Newfoundland að Baskar einbeittu sér á sextándu öld fyrst og fremst að ströndum Kanada þar sem þeir stunduðu bæði veiðar á Íslandssléttbak og Grænlandssléttbak, þorski og sel. - Baskar sóttu því ekki inn á Íshafið eða þá að ströndum Íslands fyrr en á þeirri sautjándu. Erfitt er í rauninni að tímasetja slíkt nákvæmlega en ljóst má vera að fyrstu leiðangrarnir sem koma til Vestfjarða gagngert með hvalveiðar í huga komu þangað árið 1613 og Baskar héldu áfram þeim veiðum fram til ársins 1615 en þá urðu ákveðin kaflaskipti í samskiptum Baska og Íslendinga sem víðar við strendur Norður-Atlantshafsins.


Sigurður Sigursveinsson
Skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands Selfossi

Um Spánverjavígin
Árið 1615 var erfitt ár á Íslandi. Það voraði seint og hafís lá við landið langt fram á sumar og búpeningur féll umvörpum. Um mitt sumar komust þrjú basknesk hvalveiðiskip inn á Reykjarfjörð (syðri) á Ströndum. Þegar skipin ætluðu að halda heimleiðis í september skall á óveður og þau slitnuðu upp, rak á land og sukku. Flestir komust af (rúmlega 80) og komust norður fyrir Horn. Skipstjórarnir Pétur og Stefán (Pedro de Argvirre og Stephan de Tellaria) höfðu vetursetu með mönnum sínum á Vatneyri (Patreksfirði) og komust síðan í skip um vorið en menn Marteins (Martinus de Billa Franca) skiptust í tvo hópa; annar hópurinn hélt inn í Djúp en hinn til Bolungarvíkur og síðar Þingeyrar. 13. október var Marteinn og 17 félagar hans vegnir í Æðey og á Sandeyri, en 5. október hafði hinum hópnum verið veitt fyrirsát á Fjallaskaga og voru þar 13 vegnir en einn komst undan til þeirra Péturs og Stefáns.


Jónas Kristjánsson
fyrrverandi forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar

Um útgáfu ritanna "Sönn frásaga" eftir Jón Guðmundsson lærða og "Víkingarímur" eftir ókunnan höfund sem í handriti er nefndur "J. G.s."
Rit þessi voru gefin út í dálítilli bók á vegum Hins íslenzka fræðafélags í Kaupmannahöfn árið 1950, og voru þau fyrsta rit sem Jónas Kristjánsson bjó til prentunar. Í erindi sínu mun hann fjalla um vinnu sína við þessa útgáfu, Síðan mun hann ræða um heimildargildi þessara tveggja rita og loks víkja stuttlega að bendingum sem finna má um önnur og friðsamlegri skipti Íslendinga við baskneska hvalveiðimenn á 17. öld.


Már Jónsson
sagnfræðingur

Arma og arga þjóð. Spánverjavígsdómar Ara í Ögri 1615 og 1616
Ófögur lýsing Jóns lærða á framferði Ara Magnússonar sýslumanns í Ögri og liðsmanna hans í viðureign þeirra við spænska skipbrotsmenn haustið 1615 stýrir nú þeirri mynd sem Íslendingar hafa af svonefndum Spánverjavígum. Ekki verður Sönn frásaga Jóns dregin í efa í þessu erindi, þótt ekki geti hún talist áreiðanleg í alla staði, heldur lagt mat á tvo dóma sem Ari lét ganga eftir að hinir erlendu karlar voru komnir á kreik, fyrst í Súðavík 8. október 1615 og næst að Mýrum í Dýrafirði 26. janúar 1616. Í báðum dómum eru skipbrotsmenn dæmdir friðlausir og réttdræpir, enda þótti ljóst að ásetningur þeirra væri illur. Lýst er yfirgangi þeirra víða um sveitir og vísað til ákvæða í Jónsbók frá 1281 um óbótamál því til stuðnings að rétt sé að svipta þá lífi. Athugun á þessum dómum í samhengi við önnur skjöl frá sömu árum leiðir í ljós að Ari og dómsmenn hans töldu sig ekki eiga annarra kosta völ en að ganga til atlögu við Spánverja og drepa þá sem flesta.


Magnús Rafnsson
sagnfræðingur

Jón Guðmundsson lærði
Jón Guðmundsson lærði var sjálfmenntaður alþýðumaður af Ströndum. Um tvítugt er hann orðinn fyrsta flokks skrifari og virðist einnig hafa verið þekktur fyrir myndverk sín sem því miður hafa ekki varðveist. Jón var einnig afkastamikill rithöfundur og stór hluti þess sem eftir hann liggur er sjálfsævisögulegt. Þar á meðal eru frásagnir hans af hvalveiðimönnum við Strandir en án þeirra væru heimildir okkar fátækar um samskipti þeirra við Íslendinga. Rit Jóns leiða okkur í Steingrímsfjörð þar sem hann ólst upp og segir að þar hafi Spánverjar haft aðsetur nokkur fyrstu sumrin sem þeir voru á Ströndum. Ekki nefnir Jón nákvæma staðsetningu en örnefni og sagnir drógu athyglina að Strákatanga við Hveravík og rústum sem þar var að finna. Sagt verður frá könnunaruppgreftri þar síðastliðið haust og hvað hann leiddi í ljós.


Torfi Tulinius
formaður verkefnisins Vestfirðir á miðöldum

Voru Spánverjavígin fjöldamorð?
Hafi Spánverjavígin verið fjöldamorð eru þau einu fjöldamorðin sem vitað er um að hafi verið framin á Íslandi. Aftur á móti eru atburðir sem þessir því miður algengir í veraldarsögunni, ekki síst á síðusta árhundraði. Undanfarna áratugi hafa farið fram víðtækar rannsóknir á slíkum fjöldamorðum og hefur safnast fyrir mikil þekking um þau. Hafa heimspekingar, sagnfræðingar og félagsfræðingar, meðal annarra, reynt að skilja hvað það er sem veldur því að tiltölulega siðmenntuð samfélög taka upp á því að murka lífið úr hluta íbúa þeirra. Skýringa er leitað í samfélagsgerðinni, í eðli stjórnmálaumræðunnar og almennt í orðræðunni í samfélaginu.


Til baka



Sendið póst