|
Kaldalón og KaldalónsÁ sýningunni Kaldalón og Kaldalóns er brugðið upp svipmyndum úr ævi og starfi eins ástsælasta tónskálds okkar Íslendinga, Sigvalda Kaldalóns sem varð læknir í einu afskekktasta læknishéraði landsins, Nauteyrarhéraði, árið 1910, með aðsetur á Ármúla. Sigvaldi var læknir á Ármúla í um 11 ár en flutti þaðan árið 1921. Sagt er frá tengslum tónskáldsins við norðanvert Djúp og tilurð margra kunnustu sönglaga þess eins og má þar nefna Hamraborgina, Ég lít í anda liðna tíð og Þú eina hjartans yndið mitt. Jafnframt eru sýndar göngu- og reiðleiðir um Kaldalón og yfir Drangajökul, en aðdrættir og læknisvitjanir yfir jökul tíðkuðust á þeim tíma er Sigvaldi var læknir á Ármúla. Djúpmenn minnast Sigvalda með hlýhug jafnt vegna tónlistafreka hans en ekki síður fyrir læknisverk hans en hann þótti afar lánsamur sem læknir. Nefna má að Djúpmenn sluppu við spánsku veikina 1918 vegna þess að Sigvaldi setti á algert samgöngubann við héraðið. Með samspili mynda og textabrota er brugðið upp mynd af því hvern mann Sigvaldi hafði að geyma og áhrif hans á fólkið í kringum hann. Ekki síður af því hvernig náttúran í Ísafjarðardjúpi mótaði tónsmíðar hans, þar er hlutur Kaldalóns stór. Sýningin hefur verið sett upp á nokkrum stöðum og jafnan hefur bæst við hana þar sem hún hefur verið sett upp, á Hólmavík, á Ísafirði og í Þjóðarbókhlöðunni í Reykjavík í samstarfi við Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn. Grunnsýningin er þó áfram í Dalbæ á Snæfjallaströnd. Sýningarskrá um Sigvalda Kaldalóns |