|
5. Sundlaug Ungmennafélagsins Ísafoldar
Ungmennafélagið Ísafold stóð fyrir ýmsum framkvæmdum á innri Ströndinni á fjórða áratugnum, m.a. byggingu sundlaugar inni á Dal, nálægt Heimstafelli. Laugin var hlaðin og tréstokkur til frárennslis. Búningsklefar voru hinsvegar steyptir og eru leifar þeirra enn uppistandandi. Þegar farið er fram að laug Dalsmegin þarf að fara yfir tvær ár, Þverá og Rjúkandi. En ef farið er frameftir Bæjamegin er varla nema um eitt vað að ræða á Dalsá í Fremri-Krókum nokkru fyrir neðan Gunnarsvörðufossinn. Sundnámskeið voru haldin við sundlaugina a.m.k 4 eða 5 sumur og voru alltaf um 10-20 manns á þessum sundnámskeiðum, mest krakkar 8-16 ára, en einnig eldri unglingar og jafnvel fullorðið fólk. Þeir sem kenndu þarna voru Kristján Júlíusson frá Bolungarvík, Engilbert Guðmundsson á Lónseyri, Tryggvi Halldórsson í Neðribæ og Arnþrúður Sigurðardóttir í Hærribæ. Nemendurnir voru til skiptis í lauginni stuttan tíma í einu, vegna þess hvað hún var köld, en fóru oft á dag og hlupu í leikjum á milli til að fá í sig hita.
|