|
4. Lyngholt
Ingvar Ásgeirsson byggði nýbýlið Lyngholt í landi Bæja árið 1935 og fluttu þau Salbjörg Jóhannsdóttir, ljósmóðir, þangað fjórða janúar 1936. Stofan á Lyngholti var leigð af hreppnum til kennslu frá 1936 til 1947. Kennari var Jóhann Hjaltason, en Salbjörg kenndi handavinnu og Ingvar smíðar. Salbjörg bjó lengi ein á Lyngholti eftir að Ingvar lést og flutti þaðan háöldruð til Ísafjarðar 1986 og hafði þá verið ljósmóðir á Snæfjallaströnd frá 1929. Hestagata lá inn bakkana fyrir neðan Lyngholt, þar var kölluð Pétursmýri í þá daga. Gatan var hreinsuð á vorin, verkfærir karlmenn af bæjunum komu með skóflur og tóku svona 10 metra færur hver fram fyrir annan, mokuðu burt steinum og lagfærðu hestagötuna. Gatan lá inn bakkana fyrir ofan Gilsvík og síðan inn melana þar sem nú er flugvöllurinn. Fyrir innan Bæi lá gatan inn bakkana inn að Búðarnesi, en síðan mest með sjónum.
Smellið á myndirnar til að stækka þær
|