|
28. DynjandiÁ Dynjanda var enn bænhús í upphafi 18. aldar samkvæmt Jarðabókinni, en sagt er að tíðir hafi ekki verið þar veittar í hálfa öld eða lengur. Á Dynjanda eru ellefu heimilismenn árið 1703 og einum fleiri árið 1801, en þá er þríbýli á jörðinni. Eigendur árið 1703 eru þeir bræður Sr. Gísli Hannesson á Snæfjöllum og Benedikt Hannesson á Hóli í Bolungarvík. Þeir bræður áttu þá einnig Tyrðilmýri á Snæfjallaströnd saman auk þess sem Gísli var eigandi Snæfjallastaðar. Á Fremri bænum á Dynjanda reistu Benedikt Benediktsson og Rósa Elíasdóttir fyrsta timburhúsið í Grunnavíkurhreppi árið 1906. Þau ráku um tíma útibú Ásgeirsverslunar niðri við sjóinn undan Dynjanda. Samtímis þeim á Neðri bænum bjuggu Einar Bæringsson og Engilráð, systir Benedikts. Synir þeirra, Alexander og Jóhannes voru síðustu ábúendur á Neðri bænum, en þaðan fluttu þeir ásamt fjölskyldum sínum árið 1948. Jóhannes og kona hans, Rebekka Pálsdóttir frá Höfða, fluttu að Bæjum á Snæfjallaströnd. Síðustu ábúendur á Dynjanda voru Hallgrímur Jónsson og Kristín Benediktsdóttir, dóttir Benedikts, sem var ljósmóðir í Grunnavíkurhreppi óslitið frá 1922-1962. Þau fluttu að Sætúni í Grunnavík vorið 1952 þar sem þau bjuggu í tíu ár og voru meðal þeirra sem síðastir fluttu þaðan. Hallgrímur ritaði bókina Saga stríðs og starfa um líf þeirra Kristínar í Grunnavíkursveit í rúma hálfa öld. Fornt eyðiból er tilgreint innan lands Dynjanda í Jarðabókinni, Öldugil í botni Leirufjarðar. Er ætlað að þar hafi byggð lagst af á fimmtándu öld eða þar um bil í jökulhlaupi og vatnagangi. Smellið á myndirnar til að stækka þærTil baka |