|
22. Faxastaðir
Faxastaðir voru í eigu Staðar í Grunnavík. Þar voru átta heimilisfastir árið 1703 en sjö árið 1801. Hallgrímur Jónsson frá Dynjanda fékk Faxastaði til ræktunar árið 1952 og lét slétta þar tún með jarðýtu sem keypt var á Ísafirði. Ekki fékkst þó skurðgrafa og ræktun takmarkaðist við þurrlendi. Í Vestfirzkum sögnum segir m.a. frá Faxa, skipverja Hrafna-Flóka, sem hraktist sekur maður norður í Grunnavík og settist að á Faxastöðum og hlóð garð um túnið með miklum björgum sem á einskis manns færi er að hreyfa við. Löngu síðar bjó annar maður rammur að afli á Faxastöðum er Einar Bjarnason hét. Hann varð fyrir ásóknum framliðins manns er kallaður var Bjarni paufi. Sá hafði keppt við Einar í aflraunum í lifanda lífi en ekki haft erindi sem erfiði og hefndi sín dauður. Séra Einar Vernharðsson á Stað var fenginn til að kveða drauginn niður, en reimleikaslæðingur þótti löngum á Faxastöðum. Síðasti ábúandi á Faxastöðum var Jakob Jóhannsson sem keypti bæinn fyrir 250 krónur á uppboði árið 1946. Hann bjó þar aðeins í nokkur ár, flutti þá að Oddsflöt og nýtti viðina úr bænum.
|