|
21. Staður í GrunnavíkStaður í Grunnavík er kirkjujörð frá gamalli tíð og er kirkjan helguð Maríu mey. Hafa sjómenn í gegnum tíðina heitið á Maríuhorn, þar sem getur verið sviptivindasamt og hafa áheitin gengið til Maríukirkju í Grunnavík. Í Þjóðminjasafninu er varðveitt Maríulíkneski frá Grunnavík sem talið er vera frá 15. öld. Í Vilkinsmáldaga stendur að kirkjan í Grunnavík eigi eitt lambseldi á hverjum bæ en tvö þar sem tvíbýlt er. Skuli menn taka lömb staðarins heim til sín á vetrum en skila þeim staðnum á sumri. Þessi kvöð hélst lengi og sér hennar stað í vísitasíum Brynjólfs biskups Sveinssoanr 1643 og Jóns biskups Vídalíns árið 1700. Segir í Eyrarannál Magnúsar sýslumanns Magnússonar að Jón biskup Vídalín hafi "afskikkað Maríulömb, er Grunnavíkurkirkja hafði hjá hverjum búandi manni í allri sókninni." Á Stað voru 24 til heimilis árið 1703 og 13 árið 1801. Í Jarðabókinni eru tilgreind tvö eyðiból í landi Staða, Miðhús og Skálatún. Í upphafi 18. aldar voru þar aðeins tóftarústir og túngarðar og hafði sýnilega ekki verið byggð þar í manna minnum. Stað hafa setið margir mætir klerkar eins og Pantaleon Ólafsson á 16. öld, sem Pontagil og Pontapartur, örnefni í landi Staðar, heita eftir. Kjartan Kjartansson tók við sem prestur af Pétri Maack sem fórst með bát á leið frá Ísafirði haustið 1892. Kjartan reisti íbúðarhúsið í Sætúni og var talinn fyrirmynd að Jóni Prímusi í Kristnihaldi Halldórs Laxness. Jónmundur Halldórsson tók svo við af Kjartani árið 1918 og var prestur á Stað til 1954 er hann lét af embætti fyrir aldurs sakir, síðastur klerka í Grunnavík. Séra Jónmundur lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Hann skrifaði dagbók sem lýsir kannski hvað best lífi hans og starfi í Grunnavík sem var enginn dans á rósum. Brot úr dagbókinni dag einn haustið 1930: 4. október. Foraðsveður um nóttina og morguninn. Stytti upp úr hádegi. Bundum 20 hesta á Nesjum. Hjó og saltaði 6 hrútsskrokka. Smíðaði flór fyrir Marías á Faxastöðum. Setti járnrör og maskínu í kjallarann. Smíðaði tvo hlemma. Fór tvær ferðir í Sætún. ... Hríðarveður (í aðsigi) á Austurlandi. ... Vagn í Furufirði fór vestur að sækja fjárbát, svo tilgangslaust er að fara norður á morgun. Þarf að hjálpa Valda gamla. Séra Jónmundur jarðsöng þá menn sem fórust við leit að Sumarliða pósti Brandssyni er hvarf fram af hengibrún við Vébjarnarnúp rétt fyrir jólin 1920. Sumarliði hafði haldið frá Stað í Grunnavík á Snæfjallaheiði í tvísýnu veðri. Á meðan séra Jónmundur jarðsöng mennina brunnu hús hans. Eftir eldsvoðann var bæjarstæðið flutt og ný hús reist á Stað 1921-22. Staðarheiði liggur undir hlíðum Seljafjalls um svokallaðar Tíðagötur yfir á Höfðaströnd. Önnur leið er norður yfir Kollsárheiði þar sem komið er að bænum Kollsá. Til baka |