|
Fræðslulögin 2007 og skólahald í Snæfjalla- og Grunnavíkurhreppum hinum fornuÞann 30. júní 2007 var opnuð sýning í Dalbæ um skólahald í Snæfjalla- og Grunnavíkurhreppum hinum fornu í tilefni af 100 ára afmæli fræðslulaga, en þessi lagasetning markaði upphaf almennrar skólafræðslu í landinu. Í Snæfjallahreppi var barnafræðsla á stærri heimilum í lok 19. aldar og fram að gildistöku fræðslulaganna. Miðað við Snæfjallahrepp brugðust menn í Grunnavíkurhreppi seint og treglega við kröfum fræðslulaganna, en engin barnafræðsla var þar kostuð af almannafé um árabil. Séra Jónmundur Halldórsson á Stað hafði þó mikinn áhuga á að efla skólastarfið á sinni tíð. Farskólahald var bæði í Grunnavíkur- og Snæfjallahreppum, þó oft væri erfitt að fá kennara sem voru oft ungt fólk úr sveitinni. Eiginlegur farskóli lagðist af í Snæfjallahreppi árið 1936 um sama leyti og fræðslulögin voru endurskoðuð. Hugmynd ráðamanna á Snæfjallaströnd hafði verið að byggja skólahús jafnframt samkomuhúsi á Innri Ströndinni um miðjan fjórða áratuginn. Áform um byggingu skólahúss fóru hinsvegar út um þúfur og ungmennafélagið yfirtók timbrið sem átti að fara í skólahúsið og byggði félagshús án þátttöku hreppsins. Húsið var skírt Ásgarður og stendur reykháfur þess enn við hlið Dalbæjar. Í stað þess að byggja skólahús tók hreppurinn á leigu stofu í nýbýlinu Lyngholti og var þar eftir það í tólf ár starfræktur heimangönguskóli. Kennari var Jóhann Hjaltason sem bjó í Hólhúsi, Bæjum. Skólahald lagðist af á Lyngholti vorið 1947 og í Grunnavík ári síðar. Saga Lyngholtsskólans er merk heimild um þróunina í skólahaldi á fyrri hluta 20. aldar og um leið heimild um byggðaþróun, því skólahaldið var mikilvægur þáttur í viðleitni til að halda unga fólkinu í sveitinni. Þann 18. ágúst kl. 16-18 var dagskrá í tengslum við sýninguna. Ólöf Garðarsdóttir flutti erindi um barnaskóla á millistríðsárunum í ljósi kynferðis og stétta, þéttbýlis og dreifbýlis; Loftur Guttormsson var með erindi um viðbrögð Grunnvíkinga við fræðsluskyldunni 1907 og Engilbert Ingvarsson flutti erindi um skólahald í Snæfjallahreppi. Að málþinginu loknu var gestum boðið að skoða húsakynnin á Lyngholti þar sem skólahaldið var inni á heimili Salbjargar Jóhannsdóttur og Ingvars Ásgeirssonar. Nú eru Engilbert Ingvarsson og Kristín Daníelsdóttir að gera húsið upp. |