|
7. TyrðilmýriÁ jörðinni Tyrðilmýri, sem var nefnd Dyrðilmýri í manntalinu 1845, voru níu skráðir til heimilis árið 1703. Eigendur árið 1703 eru þeir bræður Sr. Gísli Hannesson á Snæfjöllum og Benedikt Hannesson á Hóli í Bolungarvík. Þeir bræður áttu þá einnig jörðina Dynjanda í Jökulfjörðum saman auk þess sem Gísli var eigandi Snæfjallastaðar. Árið 1801 eru fjórtán þar til heimilis á tveimur býlum. Jörðinni var svo skipt í þrennt á milli systkina um eða fyrir 1930. Á 3/5 hlutum jarðarinnar á Tyrðilmýri I bjuggu Elías Borgarsson og Elísabet Hreggviðsdóttir. Húsið á Tyrðilmýri I (Mýri) stendur enn uppi (2002), en þiljur og innveggir eru löngu horfnir. Grindin kom frá Noregi, en keypt hjá Ásgeirsverslun á Ísafirði. Rétt utan við gamla bæinn Tyrðilmýri I, sem enn stendur árið 2002, er stór steinn sem talinn er huldusteinn, einnig er þar huldukirkja nokkru utar og huldubátur rétt undan landi. Salbjörg Jóhannsdóttir (f. 1896) hefur sagt frá því að kona sem hún var hjá sem ung stúlka á Mýri hafi sagt sér að hún ætti huldukonu fyrir vinkonu og að þær aðstoðuðu hvor aðra eftir föngum. Huldukonan hafi m.a. haft gráa kind á fóðrum í fjárhúsinu á bænum. Eitt sinn fótbrotnaði hestur konunnar á Mýri utarlega á Ströndinni. Hún fór þá að steininum og bað huldukonuna um hjálp varðandi hestinn, ef hún mögulega gæti. Morguninn eftir var hesturinn kominn fótbrotinn heim í hlað, en mun hafa orðið jafngóður eftir. Allir báru að sögn Salbjargar traust til þessarar konu og báru henni vel söguna. Í landi Tyrðilmýrar, aðeins utar á ströndinni, eru tóftir Hávarðsstaða, forns eyðibýlis. Þar er sagt að Hávarður Ísfirðingur hafi byggt sér bæ. Greinir frá því í Hávarðar sögu Ísfirðings að Hávarður hafi sagt við Ólaf son sinn hvert hann skyldi leita á flótta undan Þorbirni, granna þeirra: "Út með firðinum hinum megin eru víða tóftir og vítt land það er engi maður á. Þar vil eg að við reisum okkur bústað og erum við þá nær frændum okkrum og vinum. Þetta taka þeir til ráðs, flytja þangað fé sitt allt og það góss er þeir eiga og gera þar hinn besta bústað. Heitir þar síðan á Hávarðsstöðum." (Íslendinga sögur, síðara bindi, s. 1305). Á Tyrðilmýri II (Barði) bjuggu Halldór Borgarsson og Svava Guðmundsdóttir. Húsið stóð á barðinu fyrir ofan Mýrarbæinn, en um 50 metrum innar. Þetta hús var svipað og Björnshúsið í Bæjum. Þetta var timburhús, en efri veggur steyptur. Fyrirkomulag var þannig að eldavél var á sumrin í eldhúsi, en á vetrum var hún færð inn í íveruherbergið og sett við skorsteininn þeim megin. Ekki var önnur upphitun í þessum húsum. Svava dó 1944 og var ekki búið í húsinu mikið eftir það. Voru tóftirnar jafnaðar við jörðu um 1960. Á Tyrðilmýri III (Árbakka) bjuggu Jón Sigurðsson og Júlíana Borgarsdóttir. Árbakki var timburhús byggt um 1930, klætt að innan með panel. Á neðri hæðinni var stofa og eldhús, en svefnloft uppi. Skúr eða bíslag var við húsið eins og mörgum á þeirri tíð, þaðan var innangengt í fjós. Miðstöðvareldavél var í húsinu. Steinsteypt hlaða stóð við norðugafl hússins og stendur enn (2006). Íbúðarhluti hússins var rifinn á sjöunda áratugnum. Á milli íbúðarhússins á Árbakka og Mýrarár fannst kuml á fjórða áratugnum. Gróf Jóhann Hjaltason það upp og skrifaði um það skýrslu að beiðni Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar árið 1939. Þar voru tvær beinagrindur karla, en ekkert haugfé. Síðustu ábúendur á Tyrðilmýri voru Engilbert Ingvarsson og Kristín Daníelsdóttir er fluttu til Hólmavíkur 1987. Árið 1965 var Mýrará, á milli Unaðsdals og Tyrðilmýrar, virkjuð á vegum Rafveitu Snæfjalla, sem er að líkindum minnsta rafveita landsins. Þá má segja að nútímavæðingin hafi fyrir alvöru hafið innreið sína í hreppinn. Smellið á myndirnar til að stækka þærTil baka | Fleiri myndir |