|
26. Höfði
Á Höfða voru tíu manns í heimili árið 1703 og hafði þeim fjölgað um einn árið 1801 og var þá tvíbýli á Höfða. Í Jarðabókinni er kirkjujörðin Staður tilgreind sem eigandi jarðarinnar. Bærinn á Höfða stendur við vík sem nefnist Höfðabót. Í víkinni er drangur sem kallast Sólarlagssteinn og ber sólarlagið við hann um haustjafndægur séð frá bænum. Innanvið túnið rennur Bæjará til sjávar, en hún á upptök sín á Hesti, þaðan sem útsýni er gott yfir suðurhluta Jökulfjarða. Skammt frá Bæjará er svonefndur Sorgarhylur í Urriðalæk. þar er sagt að ungt barn hafi drukknað er það leitaði móður sinnar sem var að reka fé í stekk. Ofan við lækinn er Gvendarbrunnur sem fraus aldrei, að sögn Rebekku Pálsdóttur er ólst upp á Höfða, en bjó síðar á Dynjanda og á Bæjum á Snæfjallaströnd. Rebekka var dóttir Páls Halldórssonar og Steinunnar Jóhannsdóttur er bjuggu á Höfða á fyrrirhluta aldarinnar, en þar áður á Bæjum á Snæfjallaströnd. Afkomendur þeirra voru síðustu ábúendur á Höfða er fór í eyði 1956.
|