Forsíða
Ferðaþjónusta
Horfin býli
Kveðskapur
Kaldalóns
Steinn Steinarr
Rafvæðing
Spánverjavígin
Skólahald
Drangajökull
Undir Snjáfjöllum
Um Snjáfjallasetur
English

1. Lónseyri

Í Hávarðar sögu Ísfirðings segir frá því er Þorbjörn Þjóðreksson vegur Ólaf Hávarðsson á Lónseyri. Þá hvarf Sigríður bústýra Þorbjarnar og heitkona Ólafs og spunnust ýmsar sögur um hana sem tengjast Kaldalóni.

Í manntalinu 1703 eru taldir 11 til heimilis á Lónseyri í Kaldalóni. Meðal þeirra sem skráðir eru til heimilis á Lónseyri árið 1703 er Margrét Þórðardóttir, ekkja séra Tómasar Þórðarsonar, Snæfjallaklerks, er kölluð var Galdra-Manga og Möngufoss utar á Ströndinni er kenndur við. Margrét var af vottum svarin saklaus af göldrum á Alþingi árið 1662.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, sem lokið er við 1709, er sagt: "Þessi jörð hefur legið í auðn síðan bóluna" Og: "Þessa jörð brúkar nú enginn nje hefur brúkað í næstu 2 ár." Ljóst er því að stóra-bóla hefur grandað heimilisfólki á Lónseyri og lagt jörðina í eyði í upphafi 18.aldar. Í landi Lónseyrar, innar í Kaldalóni, er fornt eyðiból er kallast Lónhóll. Þar hafa Lónseyrarbændur haft grasnytjar.

Guðmundur Engilbertsson og Sigríður Jensdóttir bjuggu lengi á Lónseyri. Upp úr 1930 stóð Jens, sonur þeirra, fyrir því að byggja á Lónseyri steinhús með kjallara, hæð og risi og bárujárnsþaki og tók um það leyti við búsforráðum.

Bjarni Guðmundsson frá Lónseyri hefur sagt frá því er tröllskessa ásótti sláttumenn á Lónseyri um eða fyrir miðja 19. öld. Skessan var í skinnstakk og með trog undir hendinni. Hún staðnæmdist er hún sá sláttumennina, en þreif svo tvo hrúta og slengdi þeim yfir öxl sér. Sögn er til um helli í Háafelli og annan í Votubjörgum þar sem fnyk lagði út og talið var að tröllskessan byggi.

Smellið á myndirnar til að stækka þær

Guðmundur Engilbertsson með Friðbjörtu Jensdóttur um 1950 Guðmundur Engilbertsson um 1930 Guðmundur Engilbertsson með Friðbjörtu Jensdóttur og Jens Guðmundsson um 1950 Friðbjört Jensdóttir um 1950 Lónseyrarsystkin um 1950. Engilbert Guðmundsson, Ólafía Guðmundsdóttir með Friðbjörtu Jensdóttur, Guðmundur Engilbertsson, Jens Guðmundsson og Bjarni Guðmundsson Lónseyrarfjölskyldan um 1920. Fremri röð: Guðmundur Engilbertsson og Sigríður Jensdóttir með Bjarna Guðmundsson. Aftari röð: Engilbert Guðmundsson, Ólafía Guðmundsdóttir og Jens Guðmundsson


Til baka


Sendið póst