|
19. Sætún
Í manntalinu 1816 eru sex til heimilis á Sætúni og er það sýnilega nýbýli þá. Sætún var um tíma eina hjáleiga Staðar, en séra Kjartan Kjartansson á Stað, sem byggði fyrsta steinsteypta húsið í Grunnavíkursveit í Sætúni árið 1906, sótti um að fá að selja landspildu af Sætúni ári síðar. Þá voru víxillán vegna hússins að falla á þá sem upp á skrifuðu. Það endaði með því að verslunin á Ísafirði sem selt hafði efni í húsið sendi menn til Grunnavíkur að rífa úr því þiljur sem ekki fengust greiddar. Séra Jónmundur Halldórsson sem tók við á Stað lét svo þilja húsið að nýju og var þar skóli í hans tíð og var húsið þá kallað Steinhúsið. Hallgrímur Jónsson flutti með fjölskyldu sína frá Dynjanda í Steinhúsið í Sætúni árið 1952. Hagalín Jakobsson, sem búið hafði um hríð í Steinhúsinu, byggði þá forskalað timburhús norðan við það og nefndi Sætún II, eða Efra-Sætún. Hallgrímur keypti sér jeppa og byggði sér bílskúr í Sætúni þrátt fyrir að vegarspottinn væri ekki langur og ljóst orðið að hann yrði ekki mikið lengri. Hann reyndi einnig fyrir sér með fiskverkun í Sætúni og keypti fisk af bátum er gerðu út frá Grunnavík, en þróunin var byggðinni andstæð. Hallgrímur og fjölskylda voru með síðustu ábúendum í Grunnavík og fluttu til Ísafjarðar í nóvember 1962.
|