Forsíða
Ferðaþjónusta
Horfin býli
Kveðskapur
Kaldalóns
Steinn Steinarr
Rafvæðing
Spánverjavígin
Skólahald
Drangajökull
Undir Snjáfjöllum
Um Snjáfjallasetur
English

14. Snæfjöll

Landnámsmaðurinn Þórólfur fasthaldi, sem nam land frá Sandeyrará og inn í Hrafnfjörð í Jökulfjörðum, bjó að Snæfjöllum samkvæmt Landnámu.

Í Æfisögu Jóns Ólafssonar Indíafara frá Álftafirði við Djúp er frásögn um draug á Snæfjöllum veturinn 1611-12. Sonur séra Jóns Bjarnasonar, prests á Stað, og smali á bænum munu báðir hafa haft hug til sömu griðkonu. Prestur skipaði syni sínum að sækja fé í ógöngur sem smalinn hafði neitað að gera.Prestssonur hrapaði til bana og gekk aftur og ásótti griðkonuna og smalann en , en gerði líka aðsúg að ferðamönnum með grjótkasti og drap fé prests og át fisk úr hjalli hans ásamt því að brjóta rúður. Hann gerði þeim ekki mein sem gáfu honum af mat sínum. . Óvíst er hinsvegar hvort smalinn og griðkonan hafi nokkurn tíma verið til. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar eru þau ekki nefnd, en sonur prests hinsvegar nafngreindur sem Bjarni Jónsson og sagt að hann hafi hrapað til bana í Drangsvík, utan við bæinn. Í lok 19. aldar kom aftur upp kviksaga um draugagang á Snæfjöllum. Í Þjóðsögum Ólafs Davíðssonar, 2. bindi, segir að draugurinn hafi drafnað sundur og orðið að maurildi ef komið var við hann, en ávallt skriðið saman aftur. Prestur sendi drauginn fjölkunnugum starfsbróður sínum austur á landi sem sendi hann rakleiðis til baka og var draugnum svo fyrirkomið með aðstoð Galdra-Leifa og Jóns Guðmundssonar lærða, sem orti Fjandafælu og Snjáfjallavísur hinar síðari til höfuðs draugnum.

Jón Guðmundsson lærði (1574-1658) var alþýðufræðimaður er þótti vita lengra nefi sínu, lærði að lesa á fornar kaþólskar bækur og vann að handritauppskriftum á yngri árum. Hann var listhagur, var auknefndur málari og tannsmiður, því hann skar út hvaltennur. Hann fékkst og við lækningar og jurtasöfnun og var annálaður galdramaður. Snjáfjallavísurnar eru mjög fágætar og eru nú aðeins til í íslenska handritasafninu í Stokkhólmi nr. 17, 8vo, í kveri skrifuðu um 1660. Upphaf þeirra hljóðar svo:

Far niður, fýla,
fjandans limur og grýla;
skal þig jörð skýla,
en skeytin aursíla;
þú skalt eymdir ýla
og ofan eptir stíla
vesall, snauður víla;
þig villi óheilla brýla.

Snjáfjallavísur hinar síðari hafa þótt rammasta særingakvæði sem ort hefur verið á íslenska tungu.

Á Snæfjöllum bjuggu sautján manns árið 1703 og 1801 voru þar í heimili fjórtán sálir á tveimur bæjum. Þar var lengi kirkja, svonefnd Staðarkirkja á Snæfjöllum, er stóð rétt utan til við bæinn. Hún var lögð niður á Stað og flutt til Unaðsdals árið 1867 og sést enn móta fyrir kirkjugarðinum. Síðasti prestur á Stað var séra Hjalti Þorláksson (d. 1876). Í fjörunni neðan við Snæfjallabæinn var steinn sem kallaðist Bæjarhaus. Í Vestfirskum sögnum er sagt frá því þegar skyttan Otúel Vagnsson dauðrotaði máv sem sat á þessum steini af 100 faðma færi frá bænum. Þetta mun hafa verið um 1870. Á Snæfjöllum bjuggu til 1948 Rósinkar Kolbeinsson og Jakobína Rósinkara Gísladóttir. Bærinn á Snæfjöllum var timburhús með járnþaki og tveimur kvistum. Hann var því nokkuð reisulegur að sjá, en nokkuð gamall orðinn um 1930. Torfveggur var í veggjahæð að ofanverðu, eins og víða var gert til að mynda gott skjól fyrir norðanáttinni.

Í Jarðabókinni er talað um eyðibýlið Snæfjallaeyrar í landi Snæfjallastaðar, tvo til þrjá kílómetra fyrir utan Snæfjallastað, sem hafði verið notað sem verbúð um aldamótin 1700. Í seinni tíð hefur eyðibýlið verið nefnt Búðareyri. Helgi Jónsson byggði timburhús niður við sjóinn á Snæfjöllum um aldamótin 1900. Hann bjó þar ekki nema um tíu ár, en eftir það var húsið notað fyrir skóla. Þetta hús stóð fram á áttunda áratuginn. Í því var barnakennsla til 1932 eða svo. Var þá kennt einnig hluta af vetrinum inni á Strönd og í Unaðsdal var kennt nokkra vetur áður en kennsla byrjaði á Lyngholti 1936.

Kristjana Helgadóttir frá Skarði í Skötufirði var síðasti kennarinn á Snæfjöllum. Síðustu árin sem Rósinkar bjó á Snæfjöllum var hann í þessu húsi. Hann flutti í Hnífsdal 1948 og fóru Snæfjöll þá í eyði.

Smellið á myndirnar til að stækka þær

Skólahúsið á Snæfjöllum. Brunavirðingarteikning frá 1934 Íbúðar- og útihús á Snæfjöllum. Brunavirðingarteikning frá 1934 Jakobína Rósinkara Gísladóttir Rósinkar Kolbeinsson


Til baka


Sendið póst